Viðskipti innlent

Rekstur DV var ekki sjálfbær á síðasta ári - töpuðu 65 milljónum

Valur Grettisson skrifar
Jón Trausti Reynisson, framkvæmdastjóri blaðsins, segir ársreikningfyrir árið 2012 ekki lýsandi fyrir stöðu blaðsins í dag.
Jón Trausti Reynisson, framkvæmdastjóri blaðsins, segir ársreikningfyrir árið 2012 ekki lýsandi fyrir stöðu blaðsins í dag.
„Síðastliðið haust var orðið ljóst að reksturinn væri ekki sjálfbær í þáverandi mynd,“ segir Jón Trausti Reynisson, framkvæmdastjóri DV, en í ársreikningi blaðsins fyrir árið 2012 kom fram að eigið fé blaðsins var fimmtán milljónir króna í mínus.

Samkvæmt rekstrarreikningi fyrir árið 2012 nam rekstrartap félagsins 65,2 milljónum króna.

Jón Trausti segir að það hafi verið ljóst að félagið hafi þurft að minnka útgjöldin „og höfum við verið að vinna í því að auka tekjurnar. Til dæmis eru  tekjur á DV.is að aukast um meira en helming á milli ára,“ segir Jón Trausti.

Hann segir ársreikning síðasta árs þó ekki lýsa stöðu fyrirtækisins nú, en hlutafé var stóraukið eftir áramót.

Alls var hlutaféð aukið um ríflega 55 milljónir króna á fyrsta ársfjórðungi 2013 og var

hlutafjáraukning nýtt til uppgreiðslu skammtímaskulda, sem hafði í för með sér að skammtímaskuldir lækkuðu úr 159 milljónum króna í 105 milljónir króna á því tímabili.

Staðan er því nokkuð breytt samkvæmt árshlutauppgjörinu, því nú er eigið fé DV 27 milljónir króna.

Rekstur DV hefur verið nokkurð brokkagengur, en Sameinaði lífeyrissjóðurinn krafðist gjaldþrotaskipta yfir útgáfufélagi DV skömmu eftir áramótin 2012 vegna 600 þúsund króna skuld blaðsins við sjóðinn.

Gjaldþrotabeiðnin var þó afturkölluð þegar skuldin var greidd upp.

Í byrjun þessa árs komu nýir hluthafar inn í félagið og nam þá hlutafjáraukningin um 40 milljónum króna. Það fé fór í að greiða opinber gjöld. Þannig var gengið frá skuld við Tollstjóra auk þess sem skuldir gagnvart lífeyrissjóðum voru greiddar niður, að því er fram kom í fréttum í byrjun árs.

Hlutaafjáraukning inn í félagið hefur alls verið 90 milljónir króna frá áramótum 2012.

„Eins og sést á árshlutareikningnum hefur bæði reksturinn og eigið féð batnað á milli ára. Fyrstu þrjá mánuðina í fyrra var EBITDA 12,5 milljónir í mínus en er í hóflegum plús í ár,“ segir Jón Trausti.

Stöðugildi hjá félaginu voru 35 og launagreiðslur félagsins námu um 188,3 millj.kr. á árinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×