Viðskipti innlent

Kanna hvort Drómi hafi brotið lög

Heimir Már Pétursson skrifar
Frosti Sigurjónsson.
Frosti Sigurjónsson. Mynd/Valli
Frosti Sigurjónsson, þingmaður Framsóknarflokksins og formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis, segir að Drómi gæti hafa gerst brotlegur við lög vegna endurútreiknings gengistryggðra lána. Á Alþingi í dag minnti hann einnig á að fjármálaeftirlitið hefði heimildir til að setja slitastjórnir fjármálafyrirtækja af.

Katrín Júlíusdóttir þingmaður Samfylkingarinnar beindi þeirri fyrirspurn til Frosta á dögunum hvort hægt væri að aðstoða viðskiptavini Dróma; en svo virtist sem Drómi hefði reiknað niður gengistryggð lán tiltekins hóps viðskiptavina sinna með fyrirvara. Fyrirvarinn setti þennan hóp í töluverða óvissu um fjárhagslega framtíð sína og ekki væri vitað til þess að önnur fjármálafyrirtæki hefðu sett sams konar fyirvara við leiðréttingu gengistryggðra lána.

„Viðskiptavinir Dróma eru því að þessu leyti í allt annarri og verri stöðu en viðskiptavinir annarra fjármálastofnanna. Reynist þetta rétt er tilefni til að kanna hvort slitastjórn Dróma hafi þar með brotið lög, einkum grein 101 a í lögum númer 161 frá árinu 2002 um fjármálafyrirtæki í slitameðferð,“ sagði Frosti á Alþingi í dag.

Þar kæmi fram að Fjármálaeftirlitinu bæri að hafa eftirlit með rekstri fyrirtækja eins og Dróma. Í lögum segi að framganga fjármálafyrirtækja gagnvart viðskiptavinum sínum skuli vera í samræmi við það sem almennt tíðkist hjá fjármálafyrirtækjum.

„Fjármálaeftirlitinu er heimilt að beina kröfu til héraðsdóms um að víkja skuli slitastjórn. Efnahags- og viðskiptanefnd hefur fundað bæði Fjármálaeftirlitinu og Dróma og í framhaldi sent Fjármálaeftirlitinu bréf með spurningum varðandi þetta mál, þar sem þess er óskað að svarað verði eigi síðar en á morgun, 3. júlí,“ sagði Frosti Sigurjónsson formaður efnahags og viðskiptanefndar Alþingis.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×