Viðskipti innlent

Segir ótta um Hellisheiðarvirkjun óþarfan

Valur Grettisson skrifar
fréttablaðið/gva
Formaður umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis segir það ekki koma á óvart að framleiðslugeta Hellisheiðarvirkjunar sé undir væntingum og óþarfi að óttast það.

Sameinginlegur fundur var haldinn í umhverfis- og samgöngunefnd og atvinnuveganefnd í morgun en umfjöllunarefnið var Hellisheiðarvirkjun. Boðað var til fundarins eftir umfjöllun Fréttablaðsins um virkjunina fyrr í mánuðinum, þar sem fram kom að framleiðslugeta virkjunarinnar væri langt undir væntingum og getu.

Höskuldur Þórhallsson.
„Sá ótti sem menn höfðu um Hellisheiðarvirkjun var óþarfi,“ segir Höskuldur Þórhallsson, formaður umhverfis- og samgöngunefndar og bætir við að menn hafi vitað um boranir sem þurfti að fara í.

Orkuveita Reykjavíkur hefur nú til skoðunar að tengja Hellisheiðarvirkjun við háhitasvæðið í Hverahlíð til að tryggja þannig full afköst virkjunarinnar, og tekjur til næstu ára. Þetta er eitthvað sem Höskuldur segir að hafi ekki komið á óvart:

„Menn vissu það árið 2009 að ef menn færu ekki í nauðsynlegar boranir, þá yrði framleiðslan undir getu,“ segir Höskuldur.

Það hefur því verið hluti af áætlunum Orkuveitunnar að ráðast í orkunýtingu í Hverahlíð. En er það lausn sem hugnast nefndarmönnum?

„Það verður alltaf mat orkuveitunnar hvað sé best að gera, hún verður að taka sínar ákvarðanir út frá umhverfis- og efnahagslegum aðstæðum,“ segir Höskuldur að lokum.


Tengdar fréttir

Hellisheiðarvirkjun langt undir væntingum og getu

Vinnslusvæði Hellisheiðarvirkjunar stendur ekki undir fullum rekstri hennar. Orkuveitan vill leiða gufu frá Hverahlíð til að tryggja full afköst og tekjur. Uppbygging var of hröð. 30 megavött hafa tapast frá áramótum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×