Viðskipti innlent

FME skoðar viðskiptahætti Dróma

Heimir Már Pétursson skrifar
Frosti Sigurjónsson segir að FME vinni nú að sérstakri athugun sem snúi meðal annars að viðskiptaháttum Dróma.
Frosti Sigurjónsson segir að FME vinni nú að sérstakri athugun sem snúi meðal annars að viðskiptaháttum Dróma.
Frosti Sigurjónsson formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis upplýsir á heimasíðu sinni að Fjármálaeftirlitið vinni nú að sérstakri athugun sem snúi meðal annars að viðskiptaháttum Dróma hf.

Í tengslum við þá athugun hafi Fjármálaeftirlitið óskað eftir frekari upplýsingum frá stærstu lánastofnunum til að unnt sé að leggja mat á þá almennu framkvæmd við endurútreikning lána samkvæmt lögum nr. 151/2010 sem tíðkast hjá fjármálafyrirtækjum með gilt starfsleyfi.

Frosti sendi Fjármálaeftirlitinu formlega fyrirspurn fyrir helgi vegna gruns um að Drómi kunni að hafa gerst brotlegur við lög með því að setja fyrirvara við endurútreikning gengistryggðra lána og halda jafnvel veðum á lánum sem greidd hefðu verið upp, vegna þessa fyrirvara.

Frosti segir að á bréfi Fjármálaeftirlitsins til nefndarinnar megi dæma að Fjármálaeftirlitið sé að afla upplýsinga um málið og hafi ekki nægar upplýsingar á þessu stigi til að svara spurningu efnahags- og viðskipanefndar um það hvort Drómi hf hafi hugsanlega brotið lög.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×