Viðskipti innlent

Dæmdir fyrir að svíkja 800 milljónir undan skatti

Eiríkur Sigurðsson, eigandi verslunarinnar Víðis, og Hjalti Magnússon endurskoðandi voru dæmdir í átján mánaða skilorðsbundið fangelsi í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag fyrir skattalagabrot, en í sameiningu stóðu þeir skil á efnislega röngu skattaframtali vegna tekjuársins 2007.

Eiríkur stundaði viðskipti með hlutabréf með svonefndum framvirkum skiptasamningum þar sem undirliggjandi verðmæti voru hlutabréf Þessi viðskipti átti hann við Landsbankann, en hafði áður átt þau við Kaupþing.

Samkvæmt rannsóknargögnum málsins námu tekjur Eiríks á árinu 2007 af þessum samningum rúmlega milljarð. Alls eru mennirnir sakfelldir fyrir að hafa vantalið 800 milljónir króna af milljarðinum.

Hjalti hefur starfað sem löggiltur endurskoðandi. Farið var fram á að hann yrði sviptur réttindum en dómari féllst ekki á það.

Eiríki var svo gert að greiða rúmlega 160 milljónir króna í sekt.

Báðir dómarnir eru skilorðsbundnir til tveggja ára. Samkvæmt upplýsingum frá lögmanni Eiríks liggur ekki fyrir hvort dóminum verði áfrýjað á þessari stundu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×