Viðskipti innlent

Niðurfærsla ætti eingöngu að beinast að þeim sem eru í mestum vanda

Þorbjörn Þórðarson. skrifar
David Carey, hagfræðingur hjá OECD.
David Carey, hagfræðingur hjá OECD. Mynd/ ÞÞ
Efnahags- og framfarastofnunin, OECD, telur að niðurfærsla á húsnæðisskuldum heimilanna ætti eingöngu að beinast að þeim heimilum sem eru í raunverulegum vanda við endurgreiðslu.

„Við teljum að ef fólk sé í vandræðum með endurgreiðslu húsnæðislána þá ætti niðurfærslan að beinast að þeim en ekki að þeim sem eiga ekki í vanda með endurgreiðslu. Það virðast ekki vera nein sterk rök fyrir því að færa niður skuldir þeirra," segir David Carey, hagfræðingur hjá OECD, en stofnunin birti í dag nýja skýrslu um stöðu efnahagsmála hér á landi sem nálgast má hér.

Ósjálfbær skuldabyrði heimila og fyrirtækja hefur slæm áhrif samfélagið, tefur endurreisn hagkerfisins og getur dregið úr hagvexti til margra ára ef ekkert er að gert. Núverandi ríkisstjórn hefur það á stefnu sinni að færa niður verðtryggð húsnæðislán og fyrir Alþingi liggur þingsályktunartillaga frá forsætisráðherra um efnið. Í umsögn Seðlabanka Íslands um þingsályktunartillöguna segir að Seðlabankinn hafi lagst gegn almennri niðurfærslu skulda, en lagt til að svigrúm sem kunni að vera verði nýtt til að koma til móts við þau heimili sem eru í mestum vanda.

David Carey segist taka undir þetta sjónarmið Seðlabankans.

Carey segir að skuldir heimilanna séu háar hér í samanburði við önnur lönd, þótt þær hafi lækkað þónokkuð. „Skuldir heimilanna hafa lækkað úr 130 prósent af vergri landframleiðslu Íslands niður í 110 prósent. Það eru mörg lönd sem hafa hærri skuldir, þetta er ekki meiriháttar vandamál hér. Það er vandamál með lán sem eru ekki að innheimtast og niðurfærsla húsnæðisskulda ætti að beinast að því að leysa það vandamál. Það myndi stuðla að sterkari fjármálafyrirtækjum og sterkara bankakerfi, sem er mikilvægt til að ýta undir hagvöxt," segir Carey.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×