Viðskipti innlent

Spáir óbreyttum stýrivöxtum

Greining Íslandsbanka spáir því að peningastefnunefnd Seðlabankans ákveði að halda stýrivöxtum bankans óbreyttum á næsta vaxtaákvörðunarfundi, sem verður 12. júní næstkomandi.

Fjallað er um málið í Morgunkorni greiningarinnar. Þar segir að meginforsenda spárinnar er að gengi krónunnar er nær óbreytt frá síðustu vaxtaákvörðun 15. maí síðastliðinn og einnig er verðbólga óbreytt, þ.e. 3,3%. Birtir hafa verið þjóðhagsreikningar fyrir fyrsta ársfjórðung þessa árs sem benda til þess að hagkerfið hafi vaxið afar hægt á þeim tíma. Þá hafa verðbólguvæntingar minnkað.

„Við reiknum með því að peningastefnunefndin haldi stýrivöxtum bankans óbreyttum út þetta árið samhliða hjöðnun verðbólgunnar. Á næsta ári reiknum við hins vegar með frekari stýrivaxtahækkunum og að verðbólgan verði þá öllu þrálátari en Seðlabankinn hefur gert ráð fyrir. Spáum við því að að vextir af lánum gegn veði til 7 daga hjá bankanum verði 6,3% að meðaltali á næsta ári samanborið við 6,0% í ár,“ segir í Morgunkorninu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×