Viðskipti innlent

Ferðagleði Íslendinga eykst að nýju

Svo virðist sem ferðagleði landans hafi aukist að nýju í maí sl., en samkvæmt nýlega birtum tölum Ferðamálastofu Íslands héldu mun fleiri Íslendingar erlendis í mánuðinum en á sama tíma í fyrra.

Fjallað er um málið í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka. Þar segir að þannig námu brottfarir Íslendinga úr landi um Leifsstöð 34.400 nú í maí, en þær voru 31.500 talsins á sama tíma í fyrra. Nemur fjölgunin á milli ára 9,5%, og hafa brottfarir Íslendinga ekki verið fleiri í maímánuði síðan fyrir hrun. Virðist sú þróun sem var fyrstu mánuði ársins hafa snúist við, en þessi aukning milli ára kemur í kjölfarið á 2,6% samdrætti í apríl sl. og sé tekið mið af fyrsta ársfjórðungi var fjöldinn svo til óbreyttur á milli ára.

Sé tekið mið af fyrstu fimm mánuðum ársins nema brottfarir Íslendinga 134.000 samanborið við 131.500 á sama tímabili í fyrra. Jafngildir þetta fjölgun upp á 1,9% milli ára.

„Þessi viðsnúningur er í takti við það sem við reiknuðum með, enda hefur þróunin á gengi krónunnar verið hagstæð undanfarna mánuði, eða allt frá því lok janúar sl. Líklega hefur þeirra áhrifa byrjað að gæta í ársfjórðungslegri mælingu Capacent Gallup sem birt var í lok mars sl. á því hversu líklegir Íslendingar eru til þess að ferðast til útlanda á næstu 12 mánuðum. Benti hún til þess að ferðagleði landans hefði aukist að nýju og að landsmenn væru mun líklegri að láta undan útþrá sinni næsta árið en þeir hafa að jafnaði gert frá hruni,“ segir í Morgunkorninu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×