Viðskipti innlent

Góð sætanýting hjá WOW air

Sætanýting hjá WOW air var 86% í apríl og maí. Félagið hefur flutt um 115 þúsund farþega sem af er árinu.

Í tilkynningu segir að til samanburðar flutti Iceland Express og WOW air samanlagt 88.573 farþega á sama tímabili í fyrra og er þetta því um 30% aukning milli ára.  Til samanburðar var sætanýting Iceland Express í apríl og maí í fyrra 69%.

„Við erum afskaplega stolt af þessum árangri.  WOW air er í mikilli sókn og er í harðri samkeppni í flugi til og frá Íslandi. Félagið hefur vaxið ótrúlega á síðastliðnum mánuðum og ekkert lát er á vexti. Við sjáum að fólk fagnar samkeppni í flugi og gerir verðsamanburð. Öll viljum við jú samkeppni á okkar litla landi og við höfum lofað að veita hana“ segir Inga Birna Ragnarsdóttir framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs WOW air.

Í sumar mun WOW air bjóða upp á aukna tíðni til London og Kaupmannahafnar. Félagið mun fljúga til London 13 sinnum í viku og Kaupmannahafnar 10 sinnum í viku. Sumaráætlun félagsins verður til fjórtan áfangastaða í Evrópu:  London, Kaupmannahafnar, Parísar, Amsterdam, Barcelona, Mílanó, Lyon, Zurich, Stuttgart, Düsseldorf, Berlínar,  Alicante,  Vilníus og Varsjár. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×