Viðskipti innlent

Landmælingar Íslands fá Jafnlaunavottun VR

Ólafía B. Rafnsdóttir formaður VR, Jensína Valdimarsdóttir starfsmannastjóri Landmælinga Íslands, Magnús Guðmundsson forstjóri Landmælinga Íslands, Kjartan Ingvarsson frá Umhverfis- og auðlindarráðuneytinu og Unnur Guðríður Indriðadóttir frá  VR.
Ólafía B. Rafnsdóttir formaður VR, Jensína Valdimarsdóttir starfsmannastjóri Landmælinga Íslands, Magnús Guðmundsson forstjóri Landmælinga Íslands, Kjartan Ingvarsson frá Umhverfis- og auðlindarráðuneytinu og Unnur Guðríður Indriðadóttir frá VR.

Landmælingar Íslands er fyrsta íslenska ríkisstofnunin sem hlýtur Jafnlaunavottun VR.  Stofnunin hefur þar með fengið staðfestingu á því að búið sé að kerfisbinda launaákvarðanir, koma upp jafnlaunakerfi og að nú verði kerfisbundið fylgst með því hjá stofnuninni að ekki sé verið að mismuna starfsfólki sem vinnur sömu eða jafnverðmæt störf í launum.

Í tilkynningu segir að Ólafía B. Rafnsdóttir, formaður VR, afhenti  Magnúsi Guðmundssyni, forstjóra Landmælinga Íslands, vottunarskírteinið við hátíðlega athöfn föstudaginn 7. júní 2013. Við þetta tilefni voru saman komnir starfsmenn Landmælinga Íslands ásamt fulltrúa Umhverfis- og auðlindaráðuneytisins til þess að fagna þessum  þessum merka áfanga.

„Það er mér afar ánægjulegt að veita Landmælingum Íslands, fyrstu ríkisstofnunni á Íslandi, Jafnlaunavottun VR og er það einlæg von mín að sem flestar ríkisstofnanir fylgi í fótspor Landmælinga Íslands og leggi út í þessa vegferð með okkur og stuðli þannig  með beinum hætti að því að eyða kynbundnum launamun í landinu“ segir Ólafía B. Rafnsdóttir, formaður VR.

„Við vildum fá staðfestingu á því að við værum ekki að mismuna starfsfólki okkar. Með jafnlaunavottun er þess gætt að allir starfsmenn sem vinna sömu eða jafnverðmæt störf hjá okkur séu undir sömu mælistiku við launaákvarðanir og allri mismunun eytt sé hún til staðar.  Ég er því mjög stoltur af því   að hjá okkur ríki slíkt jafnrétti“ segir Magnús Guðmundsson forstjóri Landmælinga Íslands.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×