Viðskipti innlent

Stöðug fækkun á sölu mynddiska til myndleiga

Sala mynddiska og myndbanda til myndaleiga árið 2011 nam ríflega 28.000 eintökum, eða rúmlega 10.000 færri eintökum en 2010. Á undanförnum árum hefur seldum eintökum til myndaleiga farið ört fækkandi. Fækkunin er 75 þúsund eintök frá því er best lét árið 2001, en þá seldust ríflega 103 þúsund eintök.

Þetta kemur fram á vefsíðu Hagstofunnar. Þar segir að fjöldi útleigðra myndbanda og diska árið 2011 er áætlaður 1,240 milljón eintaka. Frá 2001 hefur áætlaður fjöldi útleigðra mynddiska og myndbanda lækkað um ríflega 1,9 milljónir eintaka, eða úr 3,1 milljón leigðra eintaka.

Miðað við áætlaða útleigu árið 2011 má gera ráð fyrir að hver einstaklingur hafi leigt sér mynd fjórum sinnum, eða meira en helmingi sjaldnar en þegar mest lét árið 2001, er áætluð útleiga var 11 myndir á mann. Inni í tölum um útleigu er ekki leiga á myndum á vegum myndveita um síma og í sjónvarp.

Þá segir að árið 2011 nam sala sölumynda á vegum útgefenda rétt ríflega 700 þúsund eintökum, eða tæplega 50 þúsund eintökum færra en árið á undan, en þá seldust ríflega 752 þúsund eintök. Verðmæti seldra mynda á útgefendastigi á síðasta ári var 663 milljónir króna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×