Viðskipti innlent

Seðlabankinn hagnaðist um hálfan milljarð í útboðum

Seðlabankinn situr eftir með gengishagnað upp á rúmlega 500 milljónir kr. eftir gjaldeyrisútboðin sem bankinn hélt í gærdag.

Þetta kemur fram í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka. Þar segir að óhætt sé að segja að niðurstaðan úr gjaldeyrisútboði Seðlabanka Íslands hafi komið nokkuð á óvart, þá einkum er snýr að því gengisbili sem bankinn setti á milli kaups og sölu á gjaldeyri.

Í þeim hluta sem snýr að kaupum Seðlabankans á evrum var um óbreytt gengi að ræða frá gjaldeyrisútboðinu í lok apríl sl. eða 210 kr. fyrir evruna. Á hinn bóginn lækkaði gengi krónu á milli útboða í útgöngulegg útboðsins, þar sem Seðlabankinn seldi aflandskrónueigendum evrur, en útboðsgengið í gær reyndist 221 kr. fyrir evruna en hafði verið 210 kr. í apríl. Greiddu eigendur aflandskróna því talsvert meira fyrir gjaldeyrinn í útboðinu í gær en í apríl án þess þó að seljendur gjaldeyris fengu að njóta góðs af.. Um er að ræða gengisbil upp á 11 kr. á evru sem bankinn tekur og hefur bilið aldrei verið meira. Gengisbilið í gær merkir að Seðlabankinn situr eftir með gengishagnað upp á rúmlega 500 milljónir kr.

Til samanburðar má nefna að allt frá því núverandi fyrirkomulag gjaldeyrisútboða komst á laggirnar hefur útboðsgengið verið annað hvort hið sama á kauplegg og sölulegg, þ.e. ekkert gengisbil, eða munurinn verið 1 kr. á evru. Aukið gengisbil er ekki til þess fallið að auka áhuga á þátttöku í gjaldeyrisútboðum Seðlabankans og dregur úr trúverðugleika ferlisins.

Í heildina var þó um myndarlegt útboð að ræða í gær, en þar skiptu 44,8 milljónir evra um hendur fyrir 9,9 milljarða kr. í útgönguleggnum og 44,1 milljón evra fyrir 9,3 milljarða kr í inngönguleggnum. Er hér um að ræða hærri fjárhæðir en skipt hafa um hendur í gjaldeyrisútboðum Seðlabankans síðasta árið, að því er segir í Morgunkorninu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×