Viðskipti innlent

Áfram dregur úr almennum lánum ÍLS en vanskil minnka

Heildarútlán Íbúðalánasjóðs (ÍLS) í maí s.l. námu einum milljarði króna, en þar af voru 530 milljónir króna vegna almennra lána. Til samanburðar námu almenn útlán í maí í fyrra um 890 milljónum króna. Meðalfjárhæð almennra lána var 9,9 milljónir króna.

Þetta kemur fram í mánaðarskýrslu sjóðsins fyrir maí mánuð. Þar segir að heildarvelta íbúðabréfa nam um 38,1 milljarði króna í maí samanborið við 28,3 milljarða í apríl 2013. Greiðslur Íbúðalánasjóðs vegna íbúðabréfa og annarra skuldbindinga námu 670 milljónum króna í maí. Uppgreiðslur námu 1,3 milljörðum króna.

Í lok mánaðarins hafði hlutfall lána í vanskilum einstaklinga enn lækkað frá því að vanskil í lánasafni Íbúðalánasjóðs náðu hámarki í júlí síðastliðnum. Í lok maí nam fjárhæð vanskila útlána til einstaklinga 4,8 milljörðum króna og var undirliggjandi lánavirði 84,5 milljarðar króna eða um 12,75% útlána sjóðsins til einstaklinga. Þetta samsvarar 0,29% lækkun frá fyrra mánuði og var undirliggjandi hlutfall lánafjárhæðar í vanskilum í lok maí 1,01% lægra en sama hlutfall í maí 2012.

Heimili í vanskilum eru 4.519 og þar af eru 640 heimili með frystingu á lánum sínum. Alls voru því 8,96% þeirra heimila sem eru með fasteignalán sín hjá Íbúðalánasjóði með lánin í vanskilum í lok maí 2013.

Fjárhæð vanskila útlána til lögaðila nam alls 3,0 milljörðum króna og nam undirliggjandi lánavirði 31,6 milljörðum króna. Tengjast því vanskil um 21,35% lánafjárhæðar sjóðsins til lögaðila, sem samsvarar 1,09% lækkun frá fyrri mánuði og er 0,51% lægra hlutfall en í lok maí 2012. Vanskil eða frystingar ná samtals til 14,33% lánasafnsins, en sambærilegt hlutfall í maí 2012 nam 15,24%.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×