Viðskipti innlent

Damanaki setur íslenskum stjórnvöldum úrslitakosti

Maria Damanaki sjávarútvegsstjóri ESB segir að íslensk stjórnvöld verði að semja strax um makrílveiðar sínar eða sæta viðskiptaþvingunum ella. Þetta kemur fram á vefsíðu BBC.

Damanaki segir að íslensk stjórnvöld hafi viljað bíða með frekari samningaviðræður um makrílveiðarnar fram í október. Það sé alltof seint að mati sjávarútvegsstjórans sem segir að viðræðurnar þurfi að hefjast á næstu vikum.

Fram kemur í fréttinni að Damanaki hafi nýlega verið á Íslandi og rætt málið við Sigurð Inga Jóhannsson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Þá kemur fram að Damanaki sé undir miklum þrýstingi frá skoskum útgerðarmönnum að beita Íslendinga og Færeyinga viðskiptaþvingunum.

Þessi orð Damanaki ríma ekki alveg við tilkynningu frá sjávarútvegsráðuneytinu um fund hennar með Sigurði Inga. Í tilkynningunni segir m.a. að Þau hafi átt hreinskiptnar en vinsamlegar viðræður um vandann sem hlutaðeigandi ríki standa frammi fyrir og útskýrði sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra málstað Íslands. Einnig segir að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og sjávarútvegsstóri ESB urðu ásátt um að leita allra leiða til að samningaferlinu verði fljótlega fram haldið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×