Viðskipti innlent

Minnstu almennu útlán ÍLS í níu ár

Almenn útlán Íbúðalánasjóðs (ÍLS) í maí sl. voru þau minnstu í a.m.k. níu ár. Námu þau alls 530 milljónir kr. í maí, sem jafngildir ríflega 41% samdrætti frá sama mánuði í fyrra, en þá höfðu þau einnig dregist umtalsvert saman milli ára.

Þetta kemur fram í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka þar sem fjallað er um mánaðarskýrslu ÍLS sem birt var í morgun.

Í Morgunkorninu segir að dregið hefur hratt úr almennum útlánum sjóðsins á undanförnum misserum. Að meðaltali námu þessi lán 723 milljónum kr. í mánuði hverjum á fyrstu fimm mánuðum þessa árs, samanborið við 912 milljónir kr. á sama tíma í fyrra og 1.960 milljónum kr. á fyrstu fimm mánuðum ársins 2011. Samhliða þessari þróun hefur veltan á íbúðamarkaði verið að aukast og nýjum íbúðalánum hjá fjármálafyrirtækjum og lífeyrissjóðum verið að fjölga.

Hlutdeild ÍLS í nýjum útlánum hefur því minnkað undanfarin misseri. Ástæðan er eflaust sú að samkeppnisstaða ÍLS er búin að vera erfið. Hafa lífeyrissjóðir margir hverjir verið að bjóða hagstæðari lánskjör á verðtryggðum íbúðalánum, auk þess sem margir lántakendur kjósa óverðtryggð íbúðalán sem eru aðeins í boði hjá viðskiptabönkunum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×