Viðskipti innlent

Hæstiréttur: Bætur miðast við fasta búsetu

Tryggingastofnun ríkisins og íslenska ríkið voru  sýknuð í Hæstarétti af öllum kröfum einstaklings um meintar ólögmætar skerðingar á greiðslum úr almannatryggingakerfinu. Með dóminum er staðfest niðurstaða héraðsdóms um að réttur fólks til greiðslna byggist á því hve lengi fólk hefur haft fasta búsetu hér á landi.

Þetta kemur fram á vefsíðu stjórnarráðsins. Málið sem hér um ræðir snýst um að kona frá Venesúela fluttist til Íslands árið 1998, þá 38 ára gömul og giftist sama ár. Eftir alvarleg veikindi um aldamótin var hún metin 75% öryrki fram til 67 ára aldurs. Vegna þess hve stutt hún hafði búið á Íslandi fékk hún tæplega 71,5% bætur. Hún taldi þá skerðingu ólögmæta og fór í mál.

Á vefsíðu stjórnarráðsins segir að Hæstiréttur vísar til þess að viðmið almannatryggingalaganna við búsetu væri almennt og gilti óháð ríkisborgararétti, kynferði, þjóðernisuppruna eða stöðu að öðru leyti. Var því hvorki fallist á það að reglurnar fælu í sér ólögmæta mismunun, færi í bága við 65. gr. stjórnarskrárinnar um jafnræði né að brotið væri með þeim gegn reglu um meðalhóf.

Þá var ekki heldur fallist á að skerðingin hefði verið óheimil með vísan til 1. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar. Loks vísaði Hæstiréttur til þess að reglurnar fælu hvorki í sér skerðingu á eignarrétti í skilningi 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar, að miða ætti lífeyrisréttindi við búsetu maka né að reglurnar fælu með óbeinum hætti í sér skerðingu á réttindum barns. Sjá nánar hér og hér.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×