Viðskipti innlent

AGS segir lítið svigrúm til skuldaniðurfellinga

Frá fundinum í morgun.
Frá fundinum í morgun. mynd/anton brink
Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (AGS) segir að lítið fjárhagslegt svigrúm sé til frekari skuldaniðurfellinga hjá heimilunum eins og ríkisstjórnin hefur lofað.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu AGS sem kynnt var í dag í framhaldi af heimsókn fulltrúa sjóðsins hingað til lands.

Hvað skuldaniðurfellingar varðar segir AGS að frekari skref í þeim efnum eigi að beinast að þeim sem ekki hafa fengið lausn sinna mála í gegnum þau úrræði sem gripið hefur verið til og eru til staðar. Einnig sé svigrúm til endurskipulagningar skulda hjá Íbúðalánasjóði. Þá er hvatt til þess að hraða vinnu og losa um stíflur hjá Umboðsmanni skuldara.

Annað sem vekur athygli í yfirlýsingu AGS er að íslensk stjórnvöld eru hvött til þess að draga úr ríkisstyrkjum til landbúnaðarins og endurbæta rekstur Íbúðalánasjóðs. Vegna þeirrar áhættu sem sjóðurinn býr við þurfi að íhuga breytingar á rekstri hans, helst með aðstoð utanaðkomandi sérfræðinga. Fjármálaeftirlitið eigi að koma að þessari vinnu.

Taka þarf á höftunum

Hvað varðar hagkerfið í heild segir AGS að efnahagsbati landsins haldi áfram þótt fortíðarvandi sé enn dragbítur á hann. Atvinnuleysi fari áfram minnkandi en fjárfesting sé lítil. Óvissan í kringum það hvenær gjaldeyrishöftin verði afnumin hefur áhrif á fjárfestingar.

Afnám gjaldeyrishaftanna þarf að fara fram á skipulegan hátt. Fyrst þurfi að ljúka vinnu við endanlegt uppgjör hjá gömlu bönkunum, þar á meðal því sem snýr að skuldabréfi Landsbankans. Þetta eigi að gera án þess að ógna fjármálastöðugleika landsins. Sjá lauslega þýðingu Seðlabankans á yfirlýsingunni hér.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×