Viðskipti innlent

Meiri kraftur í einkaneyslu kemur á óvart

Meiri vöxtur virðist ætla að verða í einkaneyslu á öðrum ársfjórðungi en á þeim fyrsta ef marka má tölur Seðlabanka Íslands um greiðslukortaveltu í maí sl. sem birtar voru í gær. Benda þær jafnframt til þess að gjaldeyristekjur vegna erlendra ferðamanna hafi verið umfram neysluútgjöld Íslendinga erlendis, og er það í fyrsta sinn sem slíkt er upp á teningnum í maímánuði, a.m.k. eins langt aftur og tölur Seðlabankans um kortaveltu ná.

Þetta kemur fram í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka. Þar segir að samkvæmt ofangreindum tölum var vöxtur í kortaveltu einstaklinga innanlands í maí heldur hægur á milli ára, eða sem nemur um 0,7% að raunvirði. Á hinn bóginn virðast Íslendingar hafa eytt mun meira erlendis í maí en þeir gerðu á sama tíma í fyrra, en þar nam aukningin um 10,2% að raunvirði. Er þetta í takti við tölur Ferðamálastofu Íslands um brottfarir Íslendinga um Flugstöð Leifs Eiríkssonar, en skv. þeim voru brottfarirnar 9,5% fleiri í maí sl. en á sama tíma í fyrra.

Samanlagt jókst kortavelta einstaklinga um 1,6% að raunvirði í maí á milli ára, sem er talsvert hægari vöxtur en sá 3,0% vöxtur sem hafði verið mánuðinn á undan. Þrátt fyrir að ekki sé um mikinn vöxt að ræða, er þróunin öllu jákvæðari það sem af er öðrum ársfjórðungi en á þeim fyrsta, en þá dróst kortavelta einstaklinga saman um 0,9% milli ára.

„Lengi vel hefur raunþróun kortaveltu einstaklinga gefið góða mynd af þróun einkaneyslu. Þó er óhætt að segja að nýlegar tölur Hagstofu Íslands um þróun hennar á fyrsta ársfjórðungi hafi komið okkur nokkuð á óvart, en skv. þeim jókst einkaneysla um 0,8% á fjórðungnum á milli ára að raunvirði. Þó ber að hafa í huga að tölur Hagstofunnar eru aðeins til bráðabirgða, og breytast stöðugt með hverri birtingu Hagstofunnar á þjóðhagsreikningum í nokkur ár eftir að fyrstu tölur líta dagsins ljós,“ segir í Morgunkorninu. Sjá nánar hér.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×