Viðskipti innlent

Segir efnahag Skipta sterkan eftir breytingar

„Efnahagur félagsins verður sterkur eftir þessar breytingar og með lækkun skulda mun fjármagnskostnaðurinn lækka verulega,“ segir Benedikt Sveinsson, formaður stjórnar Skipta hf en eins og fram kom í fréttum í morgun hafa Skipti hf. nú uppfyllt öll skilyrði sem sett voru fyrir fjárhagslegri endurskipulagningu félagsins.

Undirritaður hefur verið lánssamningur við Arion banka hf. að fjárhæð kr. 19 milljarðar og þá hefur félagið tekið á móti áskriftarloforðum frá fagfjárfestum að nýjum skuldabréfaflokki félagsins, að fjárhæð kr. 8 milljarðar. Samtals bárust áskriftarloforð fyrir tæpa 12 milljarða króna, sem er tæplega 50% umframeftirspurn, og verða áskriftarloforð skert hlutfallslega.

„Stjórnendur og starfsfólk hafa unnið mjög gott starf í rekstri Skipta og dótturfélaga undanfarin misseri. Ég vil fyrir hönd stjórnar þakka þeim og öðrum sem hafa komið að málum, kærlega fyrir vel unnin störf,“ segir Benedikt í tilkynningu um málið.

„Grunnurinn að því að unnt var að endurfjármagna félagið er sú bætta afkoma sem félagið hefur skilað að undanförnu. Reksturinn á fyrstu mánuðum þessa árs lofar góðu og endurfjármögnunin skýtur traustari stoðum undir reksturinn. Þá gengu Skipti og Síminn frá sátt við Samkeppniseftirlitið í mars á þessu ári og við bindum miklar vonir við að með henni skapist aukið  traust og friður um starfsemi félagsins  á fjarskiptamarkaði til framtíðar.“

Steinn Logi Björnsson, forstjóri Skipta hf. segir að það sé mikið ánægjuefni að hafa tryggt fjármögnun félagsins með farsælum hætti og þannig fullnægja síðasta skilyrðinu sem stóð í vegi fjárhagslegri endurskipulagningu Skipta hf.

„Framundan eru spennandi tímar á fjarskiptamarkaði og við horfum nú björtum augum til framtíðar með öfluga nýja hluthafa um borð. Með endurfjármögnuninni og endurskipulagningunni eru Skipti hf. og dótturfélög í góðri stöðu til að skerpa á framtíðarstefnunni  og vinna af krafti að því að þróa áfram bestu fjarskiptalausnirnar fyrir íslensk fyrirtæki og neytendur, sem gera miklar kröfur um úrvalsþjónustu og hagkvæmar lausnir,“ segir Steinn Logi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×