Viðskipti innlent

Ferðamenn greiddu 14,4 milljarða fyrir gistiþjónustu í fyrra

Stærsti liður erlendrar kortaveltu hér á landi á síðasta ári var í flokknum gistiþjónusta eða liðlega 14,4 milljarðar kr. Þá var velta ýmissar ferðaþjónustu (t.d. skipulegra skoðunarferða, pakkaferðir, veiðileyfi o.fl.)  8,7 milljarðar kr., 7,6 milljarðar til veitingahúsa og 4,3 milljarðar kr. til bílaleiga.

Þetta kemur fram í nýrri úttekt á kortaveltu ferðamanna á Íslandi frá Rannsóknarsetri verslunarinnar. Þetta er í fyrsta sinn sem Rannsóknarsetrið tekur þessar upplýsingar sérstaklega saman.

Í úttektinni kemur fram að á síðasta ári nam kortavelta erlendra ferðamanna vegna kaupa í  verslunum 13,7 milljörðum kr. Af þeirri upphæð var 2,7 milljörðum varið til kaupa í fataverslunum, sem er um 13% af heildarveltu íslenskra sérverslana með föt á síðasta ári. Líklegt er að aðallega sé um að ræða íslenskan útivistarfatnað.

Erlend kortavelta í íslenskri dagvöruverslun var um 2,3 milljarðar kr. í fyrra. Þá greiddu erlendir ferðamenn með kortum sínum í tollfrjálsri verslun, eða Fríhöfninni, fyrir um 1,4 milljarð kr. eða litlu lægri upphæð en þeirrar sem var varið til gjafa- og minjagripaverslunar, eða um 1,8 milljarð kr.

Erlend kortavelta vegna farþegaflugs nam í fyrra 3,2 milljarða kr. Þess ber þó að geta kortavelta útlendingar sem kaupa farmiða til Íslands frá heimalandi sínu fer aðeins í gegnum íslenska færsluhirða ef greitt er beint til íslensku flugfélaganna en ekki ef greitt er til erlendrar ferðaskrifstofu eða annars erlends milliliðs.

Mikill vöxtur

Mikill vöxtur hefur verið í erlendir kortaveltu það sem af er þessu ári. Þannig má sjá að velta bílaleiga hér á landi vegna erlendra ferðamanna hefur aukist um 77% á fyrstu fjórum mánuðum þessa árs miðað við sama tímabil í fyrra. Þá jókst erlend kortavelta vegna heimsókna á söfn og gallerí um 63% á fyrstu fjórum mánuðum þessa árs miðað við sömu mánuði í fyrra og vegna tónleika og leikhúss um 38%. Verslun hefur einnig notið góðs af þessari auknu erlendu kortaveltu það sem af er ári, en hún jókst um 29% á milli ára.

Kortavelta Íslendinga vegna ferðatengdrar þjónustu innanlands það sem af er þessu ári er svipuð veltunni í fyrra eða heldur minni. Þannig er innlend kortavelta vegna farþegaflugs 5,7% minni fyrstu fjóra mánuði þessa árs miðað við sama tíma í fyrra. Þannig má ætla að annað hvort ferðist landsmenn minna eða fargjöld hafi lækkað í verði.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×