Fiskeldisfyrirtækið Rifós í Kelduhverfi stefnir á að hætta laxeldi sínu og einbeita sér í staðinn að bleikjueldi. Félagið hefur starfsleyfi fyrir 1.000 tonna eldi á bleikju.
Fjallað er um málið á vefsíðu Samtaka atvinnulífsins undir formerkinu „Jákvæð frétt“. Þar segir að hjá fiskeldisfyrirtækinu Rifósi hf. í Kelduhverfi horfa menn bjartsýnir fram á veginn og eru að búa sig undir stækkun fyrirtækisins.
„Við erum að hefja uppbyggingu á bleikjueldi á landi," segir Hlífar Karlsson, framkvæmdastjóri Rifóss en um algera stefnubreytingu er að ræða þar sem allt eldi fyrirtækisins hefur verið í sjókvíum hingað til. „Við höfum einnig ákveðið að hætta laxeldi og snúa okkur alfarið að bleikjueldi til útflutnings á Ameríkumarkað."
Rifós hf. hefur nú starfsleyfi til 1.000 tonna eldis á bleikju að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Hlífar segir að stefnt sé að því að 20% eldisins fari fram á landi til að byrja með en ef vel tekst til getur hlutfallið orðið allt að 40%.
„Þetta helgast af því að við höfum yfir að ráða 10°C eldishita frá náttúrulegum uppsprettum og búum þá við kjörhita allt árið á landi en í sjó er mikil hitasveifla og vaxtartíminn einungis 6-7 mánuðir. Hér er því um mjög gjaldeyrisskapandi uppbyggingu að ræða," segir Hlífar.
