Viðskipti innlent

OECD: Engin verðbóla á íslenska íbúðamarkaðinum

Íbúðarhúsnæði hér á landi er virðist hvorki vera yfir- né undirverðlagt að mati OECD. Sér stofnunin því ekki merki um verðbólu á markaðinum.

Þetta kemur fram í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka. Þar segir að  Ísland sé eitt fárra OECD landa þar sem verð er nálægt jafnvægi að mati stofnunarinnar, en talsverð bóla er í íbúðamarkaðinum í Belgíu, Noregi, Kanada, Nýja Sjálandi og Frakklandi að mati stofnunarinnar. Þá er íbúðarhúsnæði undirverðlagt í Japan, Þýskalandi, Írlandi og Portúgal svo dæmi séu tekin. Kemur þetta fram í nýju riti stofnunarinnar um efnahagmál í löndum OECD.

OECD notar tvo mælikvarða á það hvort húsnæði sé undir- eða yfirverðlagt. Annars vegar nota þeir verð íbúðarhúsnæðis á móti leiguverði, sem er mælikvarði á arðsemi þess að eiga sitt eigið húsnæði, og hins vegar verð íbúðarhúsnæðis á móti tekjum sem mælir hversu vel heimilin í viðkomandi landi hafa efni á að búa í sínu eigin húsnæði.

Verðbóla í Noregi

Kemur fram í könnun OECD að íbúðaverð á móti leiguverði er hvað hæst í Noregi, Kanada, Belgíu og Nýja Sjálandi. M.ö.o er tiltölulega ódýrt að leigja sér húsnæði þar í samanburði við það að eiga húsnæði. Aftur á móti er mjög dýrt að leigja sér húsnæði í samanburði við að eiga í Japan, Þýskalandi, Írlandi, Portúgal og Slóveníu. Ísland er þarna nokkuð fyrir neðan miðjan hóp þeirra 27 landa sem könnun OECD tekur til.

Hvað varðar verð íbúðarhúsnæðis á móti tekjum þá tróna Belgía, Noregur, Kanada og Nýja Sjáland aftur á toppnum, en segja má að það taki stóran hluta tekna í þeim löndum að eiga sitt eigið húsnæði. Á móti tekur það tiltölulega lítinn hluta tekna að eiga sitt eigið í Kóreu, Japan, Þýskalandi, í Bandaríkjunum og á Írlandi.

Að lokum tekur OECD það fram að í hópi með Íslandi þar sem verð íbúðarhúsnæðis virðist vera nánast rétt verðlagt séu Bandaríkin, en þar hefur raunverð íbúðarhúsnæðis byrjað að hækka aftur eftir fjármálakreppuna, Ítalía þar sem raunverð íbúðarhúsnæðis er að lækka hratt um þessar mundir, Austurríki þar sem raunverð íbúðarhúsnæðis er að hækka og síðan Kórea og Lúxemborg þar sem verðið er nokkuð stöðugt um þessar mundir. Taka má fram að hér á landi hefur raunverð íbúðarhúsnæðis verið að þokast hægt upp á við frá árinu 2010.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×