Viðskipti innlent

Hlutabréfaviðskipti jukust um yfir 700% milli ára í maí

Mikið líf hefur færst í viðskipti á hlutabréfamarkaði miðað við árið í fyrra.
Mikið líf hefur færst í viðskipti á hlutabréfamarkaði miðað við árið í fyrra. Mynd/ Valgarður Gíslason

Viðskipti með hlutabréf í Kauphöllinni í maímánuði námu 38.3 milljörðum kr. eða 1.916 milljónum kr. á dag. Það er 718% hækkun á milli ára, samanborið við 234 milljóna króna veltu á dag í maí í fyrra, og 41% hækkun frá fyrri mánuði, en viðskipti með hlutabréf í aprílmánuði námu 1.356  milljónum kr. á dag.

Þetta kemur fram í mánaðarlegu viðskiptayfirliti Kauphallarinnar. Þar segir að mest voru viðskipti með hlutabréf Icelandair Group, 9.706 milljónir kr., VÍS, 7.867 milljónir kr. , TM, 5.685 milljónir kr., og Marel, 5.551 milljón kr.

Úrvalsvísitalan (OMXI6) lækkaði um 4,6% milli mánaða og stendur nú í 1.123 stigum.

Á Aðalmarkaði Kauphallarinnar var Landsbankinn með mestu hlutdeildina 25,6% (22,0% á árinu), Íslandsbanki með 21,4% (27,5% á árinu), og MP Banki með 16,6% (17,3% á árinu).

Viðskipti með skuldabréf námu 199 milljörðum kr í síðasta mánuði sem samsvarar 9,9 milljarða kr. veltu á dag. Þetta er 10% lækkun á milli ára, samanborið við 11,1 milljarðs kr. veltu  á dag í maí 2012, og 78% hækkun frá fyrri mánuði (viðskipti í apríl námu 5,6 milljörðum kr. á dag).

Alls námu viðskipti með ríkisbréf 154,3 milljörðum en viðskipti með íbúðabréf námu 38,1 milljarði.

Í maímánuði var Íslandsbanki með mestu hlutdeildina 24,0% (19,7% á árinu), MP Banki með 21,6% (19,8% á árinu) og Landsbankinn með 20,0% (21,8% á árinu).






Fleiri fréttir

Sjá meira


×