Viðskipti innlent

Kauphallareftirlitið kannar ónákvæmni í frétt RUV

Steinn Logi Björnsson forstjóri Skipta.
Steinn Logi Björnsson forstjóri Skipta.

Kauphallareftirlitið er að kanna það sem Steinn Logi Björnsson forstjóri Skipta hf. kallar ónákvæmni í frétt sem flutt var í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins. Fréttin fjallaði um að endurskipulagningu Skipta væri lokið og í henni talin upp helstu atriði í samkomulagi sem náðst hefur við kröfuhafa félagsins.

Í tilkynningu sem Skipti sendu til Kauphallarinnar síðasta föstudag kom hinsvegar fram að stefnt væri að því að ljúka endurskipulagningunni fyrir lok júní. Í framhaldinu ítrekaði Kauphöllin að skuldabréfaflokkur gefin út af Skiptum væri enn á athugunarlista Kauphallarinnar. Það gerir það að verkum að miklar takmarkanir eru á viðskiptum með þau skuldabréf.

Steinn Logi segir í samtali við visir.is að vissulega sé búið að ná samkomulagi um endurskipulagninguna en það eigi eftir að ganga formlega frá henni. „Lokadagurinn verður einhvern tímann í þessum mánuði,“ segir Steinn Logi.

Steinn Logi segir að allar tölulegar upplýsingar sem komu fram í fréttinni sé að finna í tilkynningu frá Skiptum í byrjun apríl. Það er öll hlutabréf í félaginu verða í eigu Arion banka og eigenda skuldabréfaflokksins SIMI 06 01 sem eru stærstu lífeyrissjóðir landsins. Það er SIMI 0601 sem er á athugunarlista Kauphallarinnar.

Arion  banki mun eignast tæplega 40% hlut í Skiptum og lífeyrissjóðirnir 47%. Afgangurinn verður í eigu einstaklinga og fagfjárfesta.

Skuldir Skipta munu lækka úr 62 milljörðum kr. og niður í 27 milljarða kr. Skuldirnar verða fjármagnaðar með 19 milljarða kr. láni frá Arion banka og átta milljörðum kr. með skuldabréfum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×