Viðskipti innlent

SFÚ óskar eftir fundi með Sigurði Inga

Samtök fiskframleiðenda og útflytjenda (SFÚ) hefur sent Sigurði Inga Jóhannssyni, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, árnaðaróskir um farsæld í nýju starfi og beðið um fund með ráðherranum til að ræða málefni samtakanna. Samkeppnisumhverfi í sjávarútvegi hallar mjög á sjálfstæða framleiðendur og stjórnvöld hafa látið undir höfuð leggjast að lagfæra samkeppnisskilyrði þrátt fyrir eindregin tilmæli m.a. frá Samkeppniseftirlitinu.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá SFÚ. Þar segir að síðastliðið haust vann KPMG skýrslu fyrir SFÚ um áhrif fiskmarkaða á fiskverð með sérstaka áherslu á að skoða áhrifin fyrir hafnarsjóði og útsvarstekjur sveitarfélaga. Niðurstöðurnar voru afgerandi. Tekjur sveitarfélaga myndu hækka um 1 milljarð á ári og tekjur hafnarsjóða um tæpar 300 milljónir ef skiptaverð verðlagsstofu yrði aflagt og markaðsverð notað í viðskiptum. Er þá ekki tekið tillit til þess tekjuauka, sem kæmi í ríkissjóð.

SFÚ telur mjög mikilvægt út frá samkeppni- og þjóðhagssjónarmiðum að tryggt verði stóraukið framboð af fiski á innlenda fiskmarkaði og að markaðsverð verði notað í öllum viðskiptum. Slíkt ýtir undir innlenda verðmætasköpun og gjaldeyrisöflun þjóðarbúsins.

SFÚ hefur óskað eftir fundi með nýjum sjávarútvegsráðherra eins fljótt og auðið er til að ræða þessi brýnu hagsmunamál þjóðarinnar. Jafnframt er ráðherrann boðinn velkominn í kynningarheimsókn í eitt af aðildarfyrirtækjum samtakanna í Reykjavík.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×