Viðskipti innlent

Horfur á hækkandi makrílverði í sumar

Nú í upphafi makrílvertíðar eru horfur nokkuð góðar á helstu mörkuðum fyrir makrílinn. Birgðir eru litlar og eftirspurn er fyrir hendi og líkur á að verð verði hærra en á síðustu vertíð. Þá hafði það reyndar lækkað töluvert frá árinu áður, þegar það var í hámarki. Búast má við að heildarframboð af makríl í ár verði svipað og í fyrra.

Þetta kemur fram á vefsíðunni kvotinn.is. Þar er rætt við Teit Gylfason sölustjóra uppsjávarfisks hjá Iceland Seafood. „Mikill áhugi er nú fyrir makríl úr Norður-Atlantshafi og þá líka frá Íslandi. Eftirspurnin lítur því vel út og bara spurning hvaða áhrif framboð frá Færeyjum og Grænlandi hefur á markaðina. Það er eiginlega eina spurningin,“ segir Teitur í samtali við kvotinn.is

Teitur segir að erfitt sé að tala um verð, því margt hafi þar áhrif. Því sé þó spáð að verið geti orðið betra en í fyrra. Gengið á rússnesku rúblunni hafi verið að veikjast, en hún sé mikilvægasti gjaldmiðillinn í viðskiptum með makríl. Rúblan eigi eitthvað undir högg að sækja gagnvart dollar um þessar mundir. „Í fyrra varð allt að 30 til 40% verðlækkun á makrílnum frá árinu áður. Verðið 2011 var hins vegar óeðlilega hátt. Ég á ekki von á að við sjáum slíkt verð aftur. Það var alltof hátt og allir í markaðnum töpuðu meira og minna á þessu,“ segir Teitur. Sjá nánar hér.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×