Viðskipti innlent

Mikil eftirspurn í hlutafjárútboði Regins

Mikil eftirspurn var eftir hlutum í hlutafjárútboði Regins í gærdag eða nær tvöfalt framboðið af þeim. Um var að ræða 25% hlut í félaginu og seldist hann á rétt rúmlega fjóra milljarða kr.

Í tilkynningu segir að í útboðinu bauð Eignarhaldsfélag Landsbankans ehf. til sölu 325.000.000 hluti í Regin hf., sem samsvarar 25% af útgefnum hlutum í félaginu. Lágmarksgengi í útboðinu var 12 krónur á hlut og þurftu tilboðsgjafar að lágmarki að bjóða í 2.000.000 hluti.

Alls óskuðu fjárfestar eftir að kaupa um 608.454.000 hluti fyrir samtals tæplega 7,6 milljarða kr.

Tekið var tilboðum í 325.000.000 hluti og var heildarsöluverðmæti útboðsins rétt rúmlega 4 milljarðar kr. Samþykkt voru tilboð sem voru á bilinu 12,20 – 12,81 krónur á hlut og var vegið meðalgengi samþykktra tilboða 12,52 krónur á hlut. Af samþykktum tilboðum þurfa einungis þeir fjárfestar sem buðu 12,20 krónur á hlut að sæta skerðingu.

Öll samþykkt tilboð miðuðust við það gengi sem viðkomandi tilboðsgjafi tilgreindi í tilboði sínu Gjalddagi og eindagi greiðslu vegna útboðsins er klukkan 16:00 þann 10. júní 2013 og verða hlutir í Regin hf. afhentir kaupendum sama dag.

Markaðsviðskipti Landsbankans hf. höfðu umsjón með sölu hlutanna.

„Í kjölfar hrunsins eignaðist Landsbankinn umtalsvert af stærri fasteignum vegna fjárhagserfiðleika viðskiptavina. Þeim eignum var komið fyrir í fasteignafélaginu Reginn og mikil áhersla var lögð á að losa þær frá bankanum eins hratt og auðið var, en þó með þeim hætti að viðhaft væri opið söluferli,” segir Steinþór Pálsson bankastjóri Landsbankans í tilkynningunni.

“Skráning Regins á markað fyrir ári og sala á 75% hlut, og nú á þeim hlut sem eftir stóð til fjölda fjárfesta, auk hagstæðrar þróunar á hlutafjárverði félagsins,  er allt vísbending um að vel hefur tekist til við þetta verkefni. Með þessu hefur bankinn reynst það hreyfiafl sem hann vill vera og náð því markmiði að stuðla að uppbyggingu hlutabréfamarkaðar á Íslandi sem er mikilvægt fyrir allt efnahagslífið. Landsbankinn óskar nýjum eigendum og félaginu velfarnaðar í framtíðinni.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×