Viðskipti innlent

Hagsjá: Lítið að gerast á fasteignamarkaði

Hagfræðideild Landsbankans segir að fá merki eru um að mikilla umbreytinga sé að vænta á fasteignamarkaði á næstunni, þrátt fyrir mikla umræðu þar um. Í góðum vikum koma fréttir um mikið fjör á markaðnum, en sveiflur eru miklar og minna látið af lítilli veltu.

Þetta kemur fram í Hagsjá deildarinnar. Þar segir að sé litið á veltuna á höfuðborgarsvæðinu sést að hún er mjög sveiflukennd. Það sem af er árinu hefur velta verið allt frá um 80 viðskiptum á viku upp í rúmlega 130. Séu sveiflurnar teknar út og litið á 52 vikna hlaupandi meðaltal sést að þróunin hefur verið lítillega upp á við á árinu, sérstaklega fyrstu vikurnar.

Meðalvelta með fasteignir á höfuðborgarsvæðinu það sem af er árinu eru 106 eignir á viku. Það er eilítið meira en var á árinu 2012 þegar að meðaltali voru seldar 102 eignir á viku.

Munur milli tímabila

Sé þessi þróun skoðuð yfir 10 ára tímabil sést greinilega hve mikill munur var á virkni á fasteignamarkaði á fyrri hluta tímabilsins og þeim síðari. Á árunum 2003 til 2007 voru að meðaltali seldar 176 eignir á viku, en frá 2008 fram á daginn í dag 76 eignir á viku. Meðaltal alls tímabilsins er 122 eignir á viku. Meðalveltan það sem af er þessu ári er eins og áður segir 106 eignir á viku, sem er um 87% af meðalsölu síðustu 10 ára, en einungis um 60% af veltunni 2003-2007. Eflaust eru skiptar skoðanir um hvort staðan nú sé góð eða slæm, en þróunin hefur engu að síður verið upp á við.

Verð fasteigna á höfuðborgarsvæðinu hefur verið tiltölulega stöðugt síðustu mánuði. Þannig hefur vísitala íbúðarhúsnæðis einungis hækkað um 0,6% frá því í desember 2012. Verð á sérbýli hefur verið sveiflukenndari en verð á fjölbýli. Það lækkaði á síðustu mánuðum ársins 2012, en hefur hækkað aftur nú að undanförnu.

Raunverð fasteigna hefur hækkað lítið síðustu misserin. Raunverð sérbýlis á höfuðborgarsvæðinu er nú nákvæmlega á sama stað og það var í upphafi ársins 2011. Raunverð á fjölbýli hefur einungis hækkað um 3% á sama tíma.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×