Viðskipti innlent

Viðsnúningur til hins verra hjá Vodafone

Fjarskipti hf., móðurfélag Vodafone skilaði 24 milljóna kr. hagnaði eftir skatta á fyrsta ársfjórðungi ársins. Á sama tímabili í fyrra var 119 milljóna króna hagnaður af rekstri fyrirtækisins.

Þessi niðurstaða var undir væntingum stjórnenda félagsins að því er segir í tilkynningu um uppgjörið. Þar kemur fram að tekjur samstæðunnar námu 3.066 milljónum kr. á tímabilinu og lækkuðu um 150 milljónir kr. frá sama ársfjórðungi í fyrra.

Vöxtur var í gagnaflutningstekjum og sjónvarpstekjum en fastlínu- og farsímatekjur drógust lítillega saman. Tekjur af þjónustu við fyrirtæki voru svipaðar og í fyrra en notkun einstaklinga dróst saman og er það í takti við vísbendingar um samdrátt í einkaneyslu á fjórðungnum. Tekjur Vodafone í Færeyjum námu 468 milljónum kr. og drógust saman um 1,1% frá fyrra ári.

"Afkoman á tímabilinu skýrist í megindráttum af þremur þáttum. Í fyrsta lagi hafði samdráttur í einkaneyslu neikvæð áhrif á fjarskiptanotkun einstaklinga og í annan stað höfðu breytingar á uppgjörsaðferðum neikvæð áhrif á afkomu fjórðungsins, þar sem kostnaður færðist milli tímabila. Þriðji áhrifaþátturinn var aukinn rekstrarkostnaður, sem hækkaði nokkuð milli ára. Við erum ósátt við þá niðurstöðu og höfum þegar hafist handa við að vinda ofan af því. Þá eru ráðgerðar breytingar á verðskrá, sem munu taka gildi 1. júlí nk,“ segir Ómar Svavarsson, forstjóri Vodafone í tilkynningunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×