Viðskipti innlent

Samkeppnishæfni Íslands fer hrakandi

Ísland lækkar um þrjú sæti á milli ára í nýrri úttekt IMD viðskiptaháskólans í Sviss á samkeppnishæfni landa. Ísland fellur úr sæti 26 í sæti 29 á listanum sem samanstendur af 60 þjóðum. Er það þriðja lakasta staða Íslands frá upphafi mælinga en árið 2011 stóð Ísland í 31. sæti.

Þetta kemur fram á vefsíðu Viðskiptaráðs. Þar segir að efstu fimm sæti listans þetta árið skipa Bandaríkin, Sviss, Hong Kong, Svíþjóð og Singapúr en það eru sömu lönd og skipuðu efstu fimm sæti listans 2012. Lestin er svo rekin af Venesúela, Argentínu og Króatíu. Þau lönd sem eru á svipuðu reki og Ísland eru meðal annars Taíland, Frakkland, Síle og Litháen.

Ísland neðst af Norðurlandaþjóðum

Ísland er neðst allra Norðurlandanna en þar næst fyrir ofan kemur Finnland sem skipar 20. sæti listans, því næst Danmörk (12. sæti), Noregur (6. sæti) og Svíþjóð (4. sæti). Aðeins Finnland og Ísland falla um sæti milli ára á meðan hin Norðurlöndin færa sig upp um 1-2 sæti.

Ísland er eftirbátur Norðurlandanna hvað varðar skilvirkni atvinnulífs og hins opinbera. Efnahagsleg frammistaða Íslands fellur um eitt sæti milli ára en helst þó þremur sætum ofar en Finnland. Það er einkum stærð markaðarins, fjárfesting og sparnaður sem þrýsta efnahagslegri frammistöðu niður. Samfélagslegir innviðir gera það að verkum að Ísland fellur ekki neðar en raun ber vitni. Þar spilar stóran þátt framboð af orku og hagnýting innviða í kringum orkugeirann sem skilar sér í hagstæðu verði raforku til heimila og fyrirtækja. Sjá nánar hér.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×