Viðskipti innlent

Eigendur Reykjahlíðar vilja virkjun í Bjarnarflagi

Landeigendur Reykjahlíðar ehf. í Mývatnssveit skora á ríkisstjórnina að beita sér fyrir því að lokið verði nauðsynlegum undirbúningi vegna nýrrar 45 MW gufuaflsvirkjunar í Bjarnarflagi og að framkvæmdir hefjist sem fyrst.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá eigendunum. Þar segir að þetta jarðhitasvæðið er í landi Reykjahlíðar og Landsvirkjun hefur orkunýtingarrétt á stórum hluta þess.

"Í Bjarnarflagi var reist 3 MW jarðgufuvirkjun árið 1969, sú fyrsta hérlendis og ein sú fyrsta í veröldinni. Þar er því elsta nýtingarsaga háhitasvæðis á Íslandi og ekkert jarðhitasvæði á landinu hefur verið rannsakað jafn vel og lengi og Bjarnarflag.

Umhverfismat hefur legið fyrir frá árinu 2004 og þar kemur fram að virkjunin muni ekki hafa umtalsverð umhverfisáhrif, að uppfylltum ákveðnum skilyrðum.

Ný jarðhitavirkjun í Bjarnarflagi er í nýtingarflokki rammaáætlunar um nýtingu vatnsafls og jarðvarma sem Alþingi samþykkti í janúar 2013.

Undirbúningur verkefnisins hefur staðið yfir í meira en tvo áratugi og nú er vinna við hönnun og útboð 45 MW virkjunar á lokastigi.

Sex af átta vinnsluborholum eru þegar til staðar og nægja fyrir 40MW af 45 MW sem framleidd verða í nýrri Bjarnarflagsvirkjun.

Ekki verður séð að lífríki Mývatns sé  hætta búin af virkjuninni, enda augljóst að landeigendur væru síðastir manna til að knýja á um starfsemi sem kynni að ógna á einhvern hátt einni þekktustu náttúruperlu landsins.

Mývetningar eru með ýmsar ráðagerðir á prjónum til nýtingar raforkuaffallsvatns og gufu frá nýrri Bjarnarflagsvirkjun á umhverfisvænan hátt.

Með nýrri virkjun í Bjarnarflagi skapast kærkomin tækifæri til að fjölga störfum í Mývatnssveit og á svæðum í kring og þó fyrr hefði verið," að því er segir í tilkynningunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×