Viðskipti innlent

Endurskipulagningu Skipta verði lokið í lok júní

Stefnt er að því að endurskipulagningu Skipta hf. verði lokið í lok júní. Þetta kemur fram í tilkynningu til Kaupahallarinnar.

Fram kom í tilkynningu Skipta hf. dags. 30. apríl 2013 að Arion banki hf. og eigendur skuldabréfaflokksins SIMI 06 01 hafa gerst aðilar að samningi um endurskipulagninguna.

Skipti hf. hefur að undanförnu unnið að því að leiða fjárhagslega endurskipulagningu félagsins til lykta, sem felst einkum í því að tryggja að ný fjármögnun félagsins liggi fyrir í undirrituðu eða samþykktu horfi eigi síðar en 30. júní 2013.

Í hinni nýju tilkynningu segir að vonir standi til þess að endurskipulagningunni ljúki þann 20. júní nk. með því að öll hlutabréf í félaginu verði afhent Arion banka hf. og eigendum skuldabréfaflokksins SIMI 06 01. Á sama tíma munu eigendur skuldabréfaflokksins SIMI 06 01 afhenda skuldabréf sín í gegnum reikningsstofnanir sínar til Skipta hf., og reikna má með því að skuldabréfin verði afskráð úr kauphöll í framhaldinu.

Í samningnum um endurskipulagninguna skuldbinda eigendur  skuldabréfaflokksins SIMI 06 01 til þess að framselja ekki skuldabréf sín án heimildar Skipta hf. Nýverið hafa félaginu borist óskir um að það heimili framsal skuldabréfa og hefur félagið því ákveðið að setja verklagsreglur um veitingu slíks samþykkis.

Verklagsreglur

Verklagsreglurnar fela það í sér að seljendur og kaupendur skuldabréfa undirrita beiðnir um framsal skuldabréfa og koma þeim til þeirra fjármálafyrirtækja er aðstoða þau við viðskiptin, en form af slíkum beiðnum má nálgast hjá félaginu. Samkvæmt beiðnunum er gert ráð fyrir að greiðsla samkvæmt samningnum að fjárhæð kr. 2.000.000, sem verður greidd til hvers eiganda skuldabréfa miðað við skráða eigendur þann 27. mars sl., skuli greidd til seljanda, en ekki kaupanda. Enn fremur er gert ráð fyrir að kaupandi skuldbindi sig til þess að framselja ekki skuldabréfin án samþykkis félagsins. Þá er gert ráð fyrir að réttindi seljanda samkvæmt samningnum séu framseld til kaupanda og að kaupandi undirgangist skuldbindingar seljanda samkvæmt samningnum. Nauðsynlegt er að félagið hafi ráðrúm til þess að skipuleggja efndadag samningsins og mun félagið því ekki veita samþykki um framsal skuldabréfanna eftir 13. júní 2013.

Félagið áréttar  ánægju sína með fjárhagslega endurskipulagningu skulda þess og vonast til þess að áætlanir um lok hennar gangi eftir eins og gengið er út frá. Skipti hf. horfir því áfram björtum augum fram á við og halda félagið og dótturfélögin áfram öflugri uppbyggingu á fjarskiptainnviðum, fjarskiptakerfum og þjónustu við viðskiptavini um land allt.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×