Viðskipti innlent

Tvö útgerðarfélög eignast dragnótaskipið Portland

Tvö útgerðarfélög, þ.e. Dala Rafn ehf, og Útgerðarfélagið Glófaxi ehf.,  óskuðu eftir viðræðum við Vestmannaeyjabæ í gær um að fá kauptilboðið á dragnótaskipið Portland VE 79 framselt til sín. Eins og kunnugt er af fréttum í ákvað Vestmannaeyjabær að nýta sér forkaupsrétt sinn að skipinu.

Í tilkynningu segir að eftir viðræður hefur Vestmannaeyjabær framselt kauptilboðið til þessara tveggja rótgrónu fjölskylduútgerða í Vestmannaeyjum.  Þar með munu þessir aðilar eignast Portlandið ásamt öllu því sem fylgir og fylgja ber þ.m.t. tilheyrandi aflahlutdeild og aflamark ásamt öllum veiðafærum.  Aðkomu Vestmannaeyjabæjar að málinu er þar með lokið.

Vestmannaeyjabær fagnar því að með þessu samkomulagi er tryggt að umræddar aflaheimildir fari ekki frá Vestmannaeyjum með tilheyrandi skaða fyrir samfélagið.

Vestmannaeyjabær gerir sér ljósa grein fyrir því að þessar rótgrónu fjölskylduútgerðir hafa tekið þessa ákvörðun í trausti þess að hin nýja ríkisstjórn standi við þær yfirlýsingar sem gefnar hafa verið um að treysta rekstrargrunn sjávarútvegsfyrirtækja með endurskoðun á veiðileyfagjaldi og fl.  Slíkt verður að vera forgangsverkefni nýrrar ríkisstjórnar, að því er segir í tilkynningunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×