Viðskipti innlent

Hagfræðideild dregur úr hagvaxtarspá sinni

Hagfræðideild Landsbankans gerir ráð fyrir að hagvöxtur verði 1,8% á þessu ári í uppfærðri þjóðhagsspá sinni. Þetta er nokkur lækkun frá spá deildarinnar frá nóvember 2012, en þá var spáð 2,4% hagvexti.

Í Vegvísi deildarinnar segir að lækkunin byggi aðallega á þeirri spá að fjármunamyndun minnki frá fyrra ári, og lýst er áhyggjum af litlum fjárfestingum og minnkun fjárhagsstofns hagkerfisins sem muni skaða það til lengri tíma. Deildin gerir hins vegar ráð fyrir meiri hagvexti á næstu tveimur árum en í fyrri spá.

Þá spáir deildin minni vexti einkaneyslu (1,9%) á milli ára en áður var gert ráð fyrir (2,1%). Einnnig bendir deildin á vísbendingar um að aukin notkun yfirdráttarheimilda hafi stuðlað að meiri einkaneyslu en ella á síðasta ári og að stóraukið peningamagn í umferð gæti bent til að umfang neðanjarðarhagkerfis kunni að bjaga mælingar á einkaneyslu.

Jákvæð teikn í spánni eru að verðbólgan er á niðurleið. Hagfræðideildin gerir þannig ráð fyrir að verðbólgan verði undir 4% í ár og á næstu tveimur árum, sem er undir efri vikmörkum verðbólgumarkmiðs. Þá hefur deildin lækkað spá sína um atvinnuleysi á árinu, úr 5,2% meðalatvinnuleysi í 4,8%.

Í þjóðhagsspánni er aukið mikilvægi ferðaþjónustunnar fyrir hagkerfið undirstrikað, bæði vegna stóraukins útflutnings á þjónustu, en einnig sem greinar sem líklegt er að fjárfesti mikið á næstu árum. Sjá nánar hér.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×