Viðskipti innlent

VÍB styrkir sýninguna Dansar í Eldborg

VÍB, eignastýringarþjónusta Íslandsbanka, verður aðalstyrktaraðili sýningarinnar Dansar í Eldborg: Igor Stravinsky í 100 ár sem sýnd verður 24. og 25. maí á Listahátíð í Reykjavík.

Í tilkynningu segir að sýningin er samstarfsverkefni Íslenska dansflokksins og Sinfóníuhljómsveitar Íslands og verða flutt tvö af danstónverkum Igors Stravinskys, Vorblótið og Petrúska. Þetta er í fyrsta sinn sem flokkurinn dansar við lifandi tónlistarflutning í Hörpu.

VÍB hefur lagt áherslu á fræðslu og faglega umræðu um viðskipti og efnahagsmál og hefur í gegnum starf sitt styrkt listir og menningarlíf. VÍB styrkti meðal annars þátttöku Íslands á Feneyjartvíæringnum árið 2011 og var stoltur bakhjarl Listahátíðar á síðasta ári.

„Þetta samstarf er Listahátíð afar mikilvægt. Það gerir henni kleift að gegna hlutverki sínu enn betur; að stuðla að nýsköpun og tefla fram framúrskarandi listafólki á öllum sviðum lista. VÍB er aðalstyrktaraðili Dansa í Eldborg, þar sem verður til nýtt, íslenskt dansverk við Vorblót Igors Stravinskys á aldarafmæli þess. Það er stórviðburður,“ segir Hanna Styrmisdóttir, listrænn stjórnandi Listahátíðar í tilkynningunni.

„Við hjá VÍB höfum á undanförnum árum lagt mikla áherslu á að skapa öfluga og opna umræðu um eignastýringu, viðskipti og efnahagsmál. Fjölbreytt menning og listir eru samfélaginu einnig mjög mikilvæg og því er það hluti af samfélagsstefnu okkar að styðja metnaðarfull menningarverkefni eins og Dansa í Eldborg á Listahátíð 2013,“  segir Stefán Sigurðsson framkvæmdastjóri VÍB.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×