Viðskipti innlent

Spá því að verðbólgan haldist óbreytt í 3,3% í maí

Greining Íslandsbanka spáir því að vísitala neysluverðs (VNV) lækki um 0,1% í maí frá mánuðinum á undan. Gengi spáin eftir mun 12 mánaða verðbólga verða óbreytt í 3,3%, en minni hefur verðbólga ekki verið í tvö ár.

Fjallað er um málið í Morgunkorni geiningarinnar. Þar segir að nokkrar sveiflur verða á tólf mánaða takti verðbólgunnar í kjölfarið að mati greiningarinnar en að jafnaði verður verðbólga rétt um 3,0% næstu tvö árin samkvæmt hennar spá. Hagstofan birtir VNV fyrir maí þann 29. maí næstkomandi. 

"Sterkari króna skilar sér í verðmælingu Þrátt fyrir nokkra veikingu á fyrri helmingi maímánaðar er gengi krónu enn u.þ.b. 8% sterkara en raunin var í febrúarbyrjun. Útlit er fyrir að gengið verði á svipuðu róli næstu mánuði, enda hefur Seðlabankinn lýst þeirri ætlan sinni að stýra gengi krónu á næstunni með beinni hætti en áður með inngripum á gjaldeyrismarkaði. Styrkingin hefur þegar komið fram að nokkru leyti í lækkandi verði innfluttra vara og eldsneytis, en við teljum að frekari styrkingaráhrif muni koma fram í vöruverði í maí og júní," segir í Morgunkorninu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×