Viðskipti innlent

Ekki orð um Íbúðalánasjóð

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Ekki er minnst einu orði á stöðu Íbúðalánasjóð í stjórnarsáttmálanum.
Ekki er minnst einu orði á stöðu Íbúðalánasjóð í stjórnarsáttmálanum.

Ekki er minnst einu orði á Íbúðalánasjóð í stjórnarsáttmála Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins sem kynntur var fyrir hádegi. Í ritinu fjármálastöðugleiki, sem Seðlabankinn gefur út tvisvar á ári, er hins vegar vikið að þessum málaflokki. Fyrra rit ársins kom út þann 30 apríl, daginn sem Sigmundur Davíð fékk stjórnarmyndar.

Í ritinu segir að staða sjóðsins sé veik og hætta sé á að ríkissjóður verði fyrir enn frekara tapi vegna sjóðsins. Frá árinu 2008 er tap sjóðsins um 52 milljarðar króna og frá árinu 2010 hefur eiginfjárframlag ríkissjóðs til Íbúðalánasjóðs numið um 46 milljörðum króna. Reiknaður vaxtamunur útlána og lántöku nægir ekki til þess að standa undir rekstrarkostnaði, vanskil eru mikil og uppgreiðsluvandinn er áfram til staðar. „Staða stærsta lánveitaanda húsnæðislána er því veik og ljóst að viðskiptalíkan sjóðsins gengur illa upp í núverandi umhverfi," segir í riti Seðlabankans.

En þótt ekki sé vikið að stöðu Íbúðalánasjóðs í stjórnarsáttmálanum er þó minnst á skuldamál heimilanna sem í mörgum tilfellum eru einmitt skuldir vegna íbúðalána. Til dæmis segir að rétt sé að nýta svigrúm, sem að öllum líkindum myndast samhliða uppgjöri þrotabúanna, til að koma til móts við lántakendur. Þá segir líka að æskilegt sé að nýta það tækifæri sem gefst samhliða skuldaleiðréttingu til að breyta sem flestum verðtryggðum lánum í óverðtryggð.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×