Viðskipti innlent

Þorgerður Katrín ráðin til Samtaka atvinnulífsins

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir hefur verið ráðin forstöðumaður nýs mennta- og nýsköpunarsviðs Samtaka atvinnulífsins (SA).

Á vefsíðu SA segir að stofnun menntasviðs sé liður í aukinni áherslu Samtaka atvinnulífsins á menntamál og nýsköpun.

„Það er mjög mikill fengur fyrir SA að fá Þorgerði til liðs við okkur í þessum mikilvæga málaflokki. Öflugt menntakerfi er lykilþáttur í að bæta samkeppnisstöðu íslensks atvinnulífs. Reynsla hennar og bakgrunnur á sviði menntamála mun nýtast SA mjög vel," segir Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.

„Ég hlakka til að takast á við spennandi og mikilvægt verkefni í þágu atvinnulífsins. Efling menntunar er tvímælalaust liður í að tryggja undirstöður bæði atvinnulífs og samfélags til lengri og skemmri tíma,“ segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, forstöðumaður mennta- og nýsköpunarsviðs Samtaka atvinnulífsins.

Þorgerður mun hefja störf hjá SA þann 1. september næstkomandi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×