Viðskipti innlent

Spáir óbreyttum stýrivöxtum

Greining Íslandsbanka spáir því að stýrivöxtum Seðlabankans verði haldið óbreyttum í þessum mánuði en Peningastefnunefnd bankans gefur út ákvörðun sína í miðri næstu viku.

Fjallað er um málið í Morgunkorni greiningarinnar. Þar segir að meginforsenda spárinnar er að krónan hefur styrkst talsvert frá vaxtaákvörðuninni 20. mars og hagtölur benda til þess að hagvöxtur undanfarið hafi verið öllu hægari en Seðlabankinn reiknaði með í sinni síðustu spá.

„Verðbólguhorfur hafa því batnað nokkuð frá síðustu vaxtaákvörðun. Verðbólguvæntingar hafa einnig lækkað, verðbólgan hjaðnað frá vaxtaákvörðuninni 20. mars og hefur verðbólguþróunin verið nokkuð í takti við síðustu verðbólguspá Seðlabankans,“ segir í Morgunkorninu.

Óbreyttir vextir út árið

„Við teljum að vegna þess hve hægur efnahagsbatinn er um þessar mundir og vegna þess að verðbólgan ætti að haldast í svipuðu róli og hún er nú á næstu mánuðum muni peningastefnunefnd Seðlabankans halda stýrivöxtum bankans óbreyttum út þetta ár,“ segir ennfremur í Morgunkorninu.

„Í þessu sambandi má einnig benda á þau orð sem Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, lét falla í viðtali við fréttaveituna Reuters 12. febrúar síðastliðinn þar sem hann sagði að vextir bankans gætu orðið óbreyttir út árið.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×