Viðskipti innlent

Slitastjórnir hafa fengið 313 milljarða úr gjaldeyrisforðanum

Á síðustu tveimur árum hafa um 313 milljarðar króna runnið úr gjaldeyrisforða Seðlabankans til slitastjórn gömlu bankanna þriggja, það er Landsbankans, Glitnis og Kaupþings.

Þetta kemur fram í svari við fyrirspurn til Seðlabankans. Eins og fram kom í frétt hér á síðunni í morgun er gjaldeyrisforðinn kominn undir 500 milljarða kr. og hefur ekki verið minni í tæp þrjú ár. Þetta kemur fram í efnahagsyfirliti Seðlabankans sem birt hefur verið á vefsíðu bankans.

Gjaldeyrisforðinn náði hámarki í nóvember árið 2011 þegar hann fór í rúmlega 1.100 milljarða kr. Hefur hann því minnkað um rúmlega 600 milljarða frá þeim tíma.

Í svari Seðlabankans segir þessir 600 milljarðar króna hafi hafi að nær öllu leyti farið í endurgreiðslur á neyðarlánum frá Alþjóðagjaldeyrissjóðum (AGS) og Norðurlöndunum sem og til slitastjórna gömlu bankanna.

Þannig hafi Seðlabankinn endurgreitt um 284 milljarða af lánunum frá AGS og Norðurlöndunum og um 313 milljarðar króna hafa verið greiddar til slitastjórna gömlu bankanna þriggja.

Þá má nefna að gjaldeyrisforðinn minnkaði um ríflega 25 milljarða króna milli mars og apríl en helsta ástæðan fyrir þeirri minnkun er styrking á gengi krónunnar undanfarnar vikur.

Hvað slitastjórnir varðar hafa þær verið með erlenda innlánsreikning í Seðlabankanum og það eru þær innstæður sem teknar hafa verið út. Þessar innstæðu töldust til heildargjaldeyrisforðans.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×