Viðskipti innlent

Greiðsluuppgjör ríkissjóðs mun verra en áður var talið

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Greiðsluuppgjör ríkissjóðs fyrir fyrsta fjórðung ársins kom töluvert verr út en gert hafði verið ráð fyrir, segir Greining Arion banka. Ríkissjóður skilaði neikvæðri afkomu um 7,5 milljarða króna, en handbært fé frá rekstri var neikvætt um 11 milljarða. Áætlað var að handbært fé yrði jákvætt um 4,7 milljarða króna á tímabilinu. Það merkir að útkoman er tæpum 16 milljörðum verri en áætlað var. Afkoman er jafnframt töluvert verri en verið hefur undanfarin tvö ár.

Greining bendir á að við afgreiðslu fjárlaga hafi verið gert ráð fyrir að handbært fé frá rekstri yrði neikvætt um 25 milljarða á öllu árinu 2013, en ljóst sé að draga þurfi verulega úr rekstrarhallanum á næstu þremur ársfjórðungum ef sú áætlun á að standast.

Segir Greining að spyrja megi sig hvort það teljist raunhæft miðað við að myndun nýrrar ríkisstjórnar er í farvatninu sem eflaust vilji sanna sig á hveitibrauðsdögunum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×