Viðskipti innlent

Hrávörur: Fiskimjöl besta fjárfestingin á eftir olíu

Á síðustu árum eða frá því að fjármálakreppan hófst í heiminum árið 2008 hefur fiskimjöl verið ein besta fjárfestingin næst á eftir olíu.

Þetta má sjá á vefsíðu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins þar sem sýnd er verðþróun á ýmsum hrávörum til lengri og skemmri tíma. Vísitölur yfir einstakar hrávörur ná aftur til 1980 og fram til síðasta árs. Miðað er við að vísitölur fyrir þessar hrávörur séu 100 stig árið 1980.

Ef olía og fiskimjöl er borið saman við ál, lambakjöt, eldislax og rækju kemur í ljós að frá árinu 1980 hefur olían nær þrefaldast að raunvirði og fiskimjölið hátt í tvöfaldast.  Í báðum tilvikum hefur raunverð á olíu og fiskimjöli tekið kipp upp á við frá árinu 2008.

Raunvirði hjá öllum hinum hrávörunum sem nefndar eru hér að framan hefur hinsvegar lækkað á sama tímabili. Þessar hrávörur eru teknar til samanburðar þar sem þær eru allir framleiddar hérlendis.

Ef litið er á tímabilið frá 1980 og þar til í fyrra kemur í ljós að vísitalan fyrir rækju hefur lækkað um tæplega helming en hún stóð í rúmum 50 stigum í fyrra. Það þýðir að raunverð fyrir rækjuna hefur lækkað um nær helming. Hæst fór rækjuvísitalan í 150 stig skömmu eftir síðustu aldamót.

Álvísitalan er rétt undir 100 stiga mörkunum í dag og því er raunverð þess nær hið sama og það var árið 1980.

Vísitalan fyrir eldislax sýnir töluverðar sveiflur á síðustu ári. Hún náði yfir 100 stig árið 2011 en er í um 80 stigum í dag.

Vísitala fyrir lambakjöt sýnir að raunvirði þess hefur hrapað á síðustu árum. Vísitalan náði hámarki árið 2008 í rúmlega 150 stigum. Í fyrra var vísitalan komin niður í tæp 70 stig.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×