Viðskipti innlent

Landsbankinn fagnar viðbrögðum FME við hlutafjárútboði í TM og VÍS

Jóhannes Stefánsson skrifar
Kristján Kristjánsson, talsmaður Landsbankans
Kristján Kristjánsson, talsmaður Landsbankans Mynd/ Vísir
Kristján Kristjánsson, talsmaður Landsbankans, segist fagna því að FME skuli hafa ákveðið að taka hlutafjárútboð í TM og VÍS til skoðunar. „Það er ekki markmið okkar að stuðla að stöðu þar sem upp geta komið lögbrot. Við viljum að allt sé unnið eftir bestu reglum," segir Kristján og bætir við: „Hlutabréfamarkaðurinn er mjög mikilvægur og það má ekki gera neitt til að tefla honum í tvísýnu." Landsbankinn sá um framkvæmd útboðsins á hlutabréfunum í TM.

Útboðin til athugunar hjá Fjármálaeftirlitinu

Fjármálaeftirlitið hefur ákveðið að hefja athugun á því hvort fjárfestar í hlutafjárútboði í TM og VÍS hafi viðhaft markaðsmisnotkun enda liggur grunur á að einhverjir þeirra hafi gert „hærri tilboð í hlutafjárútboðum en þeir geti staðið við".

Alls bárust um 7 þúsund áskriftir að heildarandvirði 357 milljarða króna, en söluandvirði hlutanna var þó ekki nema 4,4 milljarðar króna. Samkvæmt upplýsingum um niðurstöðu útboðsins fengu þeir tilboðsgjafar sem buðu undir kr. 452.250,- enga skerðingu en hæsta einstaka úthlutunin var að fjárhæð 5,8 milljónir króna.

Því virðist eftirspurn eftir hlutum í félaginu hafa verið langt umfram framboð þeirra, en eins og fyrr segir grunar FME að einhverjir fjárfestar hafi gerst sekir um markaðsmisnotkun í útboðinu.

Segir athugunina ekki snúast að TM

Ragnheiður Agnarsdóttir, framkvæmdastjóri samskipta hjá TM segir í samtali við fréttamann Vísis að tilkynning Fjármálaeftirlitsins lúti í engu að háttsemi TM. „Það er ekkert varðandi upplýsingagjöf frá félaginu sjálfu í aðdraganda útboðsins sem er til skoðunar," segir Ragnheiður.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×