Viðskipti innlent

Líklega kaupir Seðlabankinn gjaldeyri á sumrin og selur á veturna

„Í sem stystu máli virðist planið hljóma þannig að bankinn kaupir gjaldeyri á sumrin og selur hann aftur á veturna.“

Þetta segir í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka þar sem fjallað er um að ólíkt því sem búast mátti við tilkynnti Seðlabankinn ekki um í morgun að hann hafi ákveðið að hefja á ný regluleg kaup á gjaldeyri á markaði til að styðja við óskuldsettan gjaldeyrisforða bankans. Hins vegar segir í yfirlýsingu peningastefnunefndar að bankinn mun leitast við að auka óskuldsettan gjaldeyrisforða eftir því sem aðstæður leyfa, en slíkt sé langtímamarkmið.

Í Morgunkorninu segir að í yfirlýsingu nefndarinnar sé gefið til kynna að Seðlabankinn hyggist beita inngripum á gjaldeyrismarkaði á næstunni til að jafna flæði gjaldeyris. Segir í yfirlýsingunni að dregið hafi úr gjaldeyrismisvægi í efnahagsreikningum fjármálastofnana að á undanförnu og gengi krónunnar hefur verið nálægt því sem að óbreyttu má ætla að nægi til þess að ná verðbólgumarkmiðinu á næstu misserum.

„Telur nefndin að aðstæður sem þessar skapi forsendur fyrir aukinni virkni Seðlabankans á gjaldeyrismarkaði næsta kastið með það að markmiði að draga úr gengissveiflum miðað við stöðu krónunnar að undanförnu,“ segir í Morgunkorninu.

„Í sem stystu máli virðist planið hljóma þannig að bankinn kaupir gjaldeyri á sumrin og selur hann aftur á veturna. Lítur út fyrir að hann ætli sér að haga gjaldeyriskaupunum eftir flæðinu á hverjum tíma á næstunni fremur en kaupa ákveðna fjárhæð í hverri viku, og horfi til þess að halda gengi krónu í námunda við núverandi gengi næsta kastið.

Sagði Seðlabankastjóri á fundi með greiningaraðilum og fjölmiðlum í morgun að bankinn væri nú að þessu leyti búinn að taka upp verðbólgumarkmið plús sem hefur verið í farvatninu um nokkra hríð en meginbreytingin felst í því að þá er gjaldeyrisinngripum beitt með virkari hætti en áður til að skapa stöðugleika á gjaldeyrismarkaði og tryggja verðbólgumarkmiðið.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×