Viðskipti innlent

Hagar hagnast um tæpa 3 milljarða

Hagnaður Haga á síðasta rekstrarári félagsins sem lauk í lok febrúar s.l. nam tæplega 3 milljörðum kr. eftir skatta. Til samanburðar var hagnaðurinn rúmlega 2,3 milljarðar kr. árið á undan og eykst því um rúm 26% milli ára.

Þetta kemur fram í uppgjöri fyrir árið sem sent hefur verið til Kauphallarinnar. Þar kemur fram að vörusala rekstrarársins nam  tæplega 71,8 milljörðum  króna, samanborið við 68,5 milljarða króna árið áður. Söluaukning félagsins er  því 4,8% milli ára.

Heildareignir samstæðunnar í lok rekstrarársins námu 25.7 milljörðum króna og eiginfjárhlutfall er 34%.

„Rekstur félagsins á rekstrarárinu 2012/13 var umfram áætlanir og betri en á fyrra ári. Áætlanir núverandi rekstrarárs eru nokkuð í takt við nýliðið rekstrarár,“ segir í tilkynningunni.

„Það er stefna félagsins að skoða áfram mögulegar fjárfestingar í fasteignum fyrir rekstrareiningar samstæðunnar. Einnig verður það fé sem til verður í rekstrinum, að einhverju marki, notað til niðurgreiðslu vaxtaberandi lána.

Auk þess mun félagið halda áfram þeirri vinnu sem hefur átt sér stað við að bæta aðfangakeðjuna, fækka fermetrum og ná hagstæðari leigusamningum fyrir rekstrareiningar sínar.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×