Viðskipti innlent

Stefna á 205 þúsund tonna framleiðslugetu í Straumsvík

Álverið í Straumsvík mun að sinni stefna að því að auka framleiðslugetu úr 190 þúsund tonnum á ári í u.þ.b. 205 þúsund tonn, eða um 8% í stað 20% eins og upphaflega var stefnt að með fjárfestingarverkefni því sem nú stendur yfir.

Í tilkynningu segir að viðamiklar uppfærslur á straumleiðurum í kerskálum hafa reynst vandkvæðum bundnar bæði í tæknilegu og öryggislegu tilliti. Athuganir sem ráðist var í af þessum sökum leiddu í ljós að ná má fram umtalsverðum hluta framleiðsluaukningarinnar án þess að breyta straumleiðurunum. Með hliðsjón af þeirri niðurstöðu er ekki talið fýsilegt að verja meiri fjármunum en þegar hefur verið gert til að ná fram þeirri framleiðsluaukningu sem upp á vantar með þeim hætti sem til stóð.

Leitað verður leiða til að ná henni fram með öðrum hætti en ljóst er að það verður lengri tíma verkefni.

Ákvörðun þessi hefur ekki áhrif á aðra meginþætti fjárfestingarverkefnisins í Straumsvík, þ.e. að skipta að fullu yfir í framleiðslu á stöngum í stað barra og að auka afkastagetu lofthreinsivirkja. Rétt er að leggja áherslu á að í dag vinna um 150 manns að þeim verkefnum sem haldið verður áfram með.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×