Viðskipti innlent

„Ekki rétt að innlendar matvörur hafi hækkað til jafns við innfluttar“

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Samsett mynd/MS

„Það er ekki rétt að innlendar matvörur hafi hækkað til jafns við innfluttar,“ segir Einar Sigurðsson, forstjóri Mjólkursamsölunnar, í svari sínu við spurningu sem barst inn á vefsíðuna Spyr.

Spurt er hvers vegna innlendar matvörur hafi hækkað jafn mikið og innfluttar fyrst allir svari því til að gengi íslensku krónunnar sé sökudólgur verðhækkana. Þá er einnig spurt hvað réttlæti það að kíló af íslenskum osti kosti tæpar tvö þúsund krónur.

Einar vísar til skýrslu Samkeppniseftirlitsins frá síðasta ári þar sem fram kemur að innlend matvara hefur hækkað minna en hin svokallaða dagvöruvísitala, en öðru máli gegni með innflutta matvöru.

„Mörg aðföng innlendrar matvælaframleiðslu eru keypt erlendis og verð þeirra því háð gengissveiflum. Ég nefni til dæmis kjarnfóður mjólkurkúa, áburð, olíu, vélar og tæki, flutningabíla, umbúðir og íblöndunarefni. Þekkt er samhengi gengis, verðbólgu og þar með launakostnaðar. Þannig er eðlilega ákveðið samhengi gengis og verðlags á innlendum matvörum.“

Mynd/Samkeppniseftirlitið

Tíu lítrar af mjólk verða kíló af osti

Varðandi ostaverð segir Einar rétt að hafa í huga að smásöluálagning á osti sé frjáls hér á landi en heildsöluverðið á verulegum hluta framleiðslunnar sé ákveðið af verðlagsnefnd búvöru.

„Ekki kemur fram hvar ostur kostar tæpar tvö þúsund krónur kílóið. Heildsöluverð á algengustu tegundum af osti er á bilinu um 1.150 krónur til 1.250 krónur og hefur ekki breyst frá því í júlí 2012. Til vinnslu á kílói af osti þarf tíu lítra af mjólk, sem kosta vinnsluna um 810 krónur á hlaðinu hjá bændum. Hún hefur þá 350 til 450 krónur til að safna mjólkinni hjá bændum, gæðaprófa, staðla hana og framleiða ostana, greiða fyrir afskurð, pakka þeim og dreifa til smásöluaðila og greiða markaðs-, sölu- og stjórnunarkostnað.“

Mynd/Samkeppniseftirlitið
Mynd/Samkeppniseftirlitið
Mynd/Samkeppniseftirlitið
Mynd/Samkeppniseftirlitið





Fleiri fréttir

Sjá meira


×