Viðskipti innlent

Financial Times: Íslensk hönnun hefur blómstrað í kreppunni

Tveir af hlutunum sem myndir eru af í greininni.
Tveir af hlutunum sem myndir eru af í greininni.

Financial Times hefur birt ítarlega grein á vefsíðu sinni um íslenska hönnun undanfarin ár. Segir blaðið að íslensk hönnun hafi blómstrað í kreppunni sem fylgdi í kjölfar bankahrunsins haustið 2008.

Í greininni er m.a. rætt við Ágúst Einarsson hagfræðiprófessor við háskólann á Bifröst sem segir að það myndi ekki koma sér á óvart ef skapandi greinar á Íslandi yrðu stærsti einstaki þátturinn í landsframleiðslu landsins innan næstu 15 til 20 ára.

Einnig er rætt við Höllu Helgadóttur forstjóra Iceland Design Center. Hún segir að kreppan hafi á vissan hátt komið íslenskum hönnuðum til góða. Þeir hafi þurft að vera hugvitssamari í hönnun sinni, nota innlent efni og það hafi virkað vel.

Fram kemur í greininni að hönnun sé tiltölulega ný starfsgrein á Íslandi. Það hafi komið ungum íslenskum hönnuðum til góða að lítil sem engin hefð hefur verið til staðar á landinu hvað hönnun varðar á síðustu áratugum. Því hafi þessir íslensku hönnuðir skapað sinn eigin gáskafulla stíl þar sem efniviður sem þegar er til staðar á Íslandi er uppistaðan í verkum þeirra.

Þannig megi nefna muni sem gerðir eru úr hrauni, ljósakrónur úr þurrkuðum fiski, stóla og húsgögn úr áli og veggflísar gerðar úr laxaroði svo dæmi séu tekin. Fjölmargar myndir af þessari íslensku hönnun fylgja með í greininni. Sjá nánar hér.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×