Viðskipti innlent

Krónan styrkist í útboðum Seðlabankans

Töluverð breyting varð á útboðsgengi krónu í gjaldeyrisútboði Seðlabankans síðastliðinn þriðjudag. Hefur gengi krónu gagnvart evru ekki verið sterkara í útboði síðan gjaldeyrisútboðunum var fyrst hleypt af stokkunum vorið 2011. Á heildina litið má segja að útboðið hafi verið ágætlega heppnað, en þar skiptu tæplega 29 milljónir evra um hendur fyrir 6 milljarða kr.

Þetta kemur fram í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka. Þar segir að þróun útboðsgengisins í gjaldeyrisútboðum Seðlabankans er áhugaverð, enda hefur útboðsgengi krónu styrkst gagnvart evru nánast samfellt frá júní í fyrra.

Á seinni hluta síðasta árs veiktist krónan hins vegar verulega á innlendum gjaldeyrismarkaði, og minnkaði því munurinn á útboðsgenginu og innlendu gengi úr 88 kr. (56%) í júní í fyrra niður í 59 kr. (35%) í febrúar síðastliðnum. M.ö.o. minnkaði verulega ábatinn fyrir innlenda aðila af því að nýta útboðsleiðirnar til krónukaupa fremur en innlendan gjaldeyrismarkað.

Þetta virðist þó ekki hafa dregið úr áhuga á að nýta 50/50 leiðina, því þátttaka í henni var hvað mest þegar þessi munur var minnstur í vetur. Undanfarna mánuði hefur svo verið samræmi í þróun álandsgengis og útboðsgengis, og ábatinn af því að selja gjaldeyri í útboðunum haldist svipaður frá febrúarútboðinu.

Í fyrri hluta útboðsins, þar sem Seðlabankinn keypti evrur gegn greiðslu í verðtryggðum ríkisbréfum eða reiðufé skv. 50/50 leið, námu tilboð alls 33,4 milljónum evra. Er það nokkru lægri upphæð en í síðustu útboðum. Tók bankinn tilboðum að fjárhæð 23,9 milljónum  evra skv. þeirri leið, en 5 milljónum  evra gegn greiðslu í RIKS33-skuldabréfum. Útboðsgengið var 210 kr. fyrir evruna, og hefur það aldrei verið lægra í þessum hluta útboðsins

Í lokalegg útboðsins, þar sem Seðlabankinn seldi aflandskrónueigendum evrur, var eftirspurn í takti við undanfarin útboð. Alls bárust tilboð að fjárhæð 9,3 milljarðar kr. og tók Seðlabankinn tilboðum fyrir 6,0 milljarða kr. Útboðsgengið var hið sama og í fyrri hlutanum, 210 kr. fyrir evruna. Greiddi bankinn því aflandskrónueigendum u.þ.b. 28,6 milljónir  evra fyrir milljarðana sex.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×