Viðskipti innlent

Kaupa þrjá sumarbústaði af slitastjórn Landsbankans

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Þingvellir
Þingvellir Mynd/ GVA.
Þingvallanefnd hefur keypt þrjá sumarbústaði af LBI, slitastjórn gamla Landsbankans, sem staðsettir eru í landi þjóðgarðsins á Þingvöllum. Samningar um þetta voru undirritaðir 29. apríl síðastliðinn en kaupverð var 34,5 milljónir króna.

Sumarhúsin þrjú, Gjábakkaland 1, 3 og 5, eru þau einu sem standa neðan vegar í landi jarðarinnar Gjábakka á austurbarmi sigdældarinnar við Hrafnagjá. Húsin voru  byggð á árunum 1967 og 1968 og hafa staðið ónotuð síðustu ár. Svæðið hefur mikla sérstöðu innan þjóðgarðsins, landið er tiltölulega ósnortið en skv. stefnumörkun þjóðgarðsins er fyrirhugað að í Gjábakkalandi verði upphaf gönguleiða og miðstöð annarrar útivistar í austanverðum þjóðgarðinum. 

„Þetta er mikilvægur áfangi í uppbyggingu þjóðgarðsins á Þingvöllum og í samræmi við stefnumörkun hans og tilmæli UNESCO", segir Álfheiður Ingadóttir, formaður nefndarinnar, í tilkynningu. „Við höfum átt í óformlegum viðræðum um þessi kaup frá 2011. Í fjárlögum 2013 er í 6. gr. heimild til að kaupa jarðir og sumarhús í landi þjóðgarðsins. Nefndin lagði einróma til við forsætisráðuneytið að hún yrði nýtt núna þegar þetta einstaka tækifæri gafst í þeim tilgangi að nýta svæðið til útivistar og náttúruskoðunar."

Ofan vegar í Gjábakkalandi eru sex sumarhús í einkaeigu. Tvö önnur sumarhúsasvæði eru í þjóðgarðinum; við Valhallarstíg og á Rauðukusunesi í landi Kárastaða. Ekki er heimilt að reisa ný sumarhús í þjóðgarðinum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×